Eins og GLÖGGIR lesendur bloggsins hafa tekið eftir þá er myndin hérna fyrir ofan tekin þegar við fórum og heimsóttum Evrópudómstólinn í Lúxemborg í maí 2005. Þetta eru sem sagt finnsku túlkarnir sem sjást þarna inni í glerbúrinu. Einnig má sjá stólana sem við sátum í meðan við hlýddum á flutning máls fyrir dómnum. Þetta var hálf skondið því þegar við komum vorum við tekin í smá fyrirlestur og var þá lögð gríðarleg áhersla á að við sofnuðum ekki á meðan málflutningi stæði. Var okkur einnig bent á að það væri mjög auðvelt að sofna því stólarnir væru svo þægilegir!! Jæja, hvað um það, ég minnist þess nú ekki að stólarnir hafi verið eitthvað súper dúber þægilegir en málflutningurinn var hins vegar í besta falli mjög svæfandi. Það gerði það að verkum að undirrituð sat og flakkaði á milli túlka í heyrnatólinu og beindi ég um leið sjónum mínum að túlkunum sjálfum þar sem þeir sátu í básunum. Þessar finnsku, sem prýða bloggið mitt, voru ekkert minna svæfandi en flutningurinn sjálfur þannig að ég var fljót að skipta yfir á næsta túlk. Af öllum túlkunum bar sá franski höfuð og herðar yfir hina. Hann talaði held ég meira með höndunum en hann gerði með munninum – svo skemmdi útlitið nú ekki fyrir, bara alveg eins og sjarmörinn hann Gerard Depardieu!!!

Nóg í bili, njótið helgarinnar og í guðs bænum farið varlega í umferðinni,

A

Ekki nógu ánægð

september 28, 2006

þannig er mál með vexti að síðasta færsla birtist ekki öll – haldið þið að sé nú! ég reyndi að setja einhvern sætan endi þar sem ég mundi hinn ekki nákvæmlega…

annað, ég vill hér með biðja Jónínu Ingibjörgu innilegrar afsökunar á því að skrifa vill í stað vil. Þó langar mig að benda á að einungis guð getur verið fullkomin og kem ég því til með að halda áfram að skrifa vill með tveimur ell-um því annars væri ég fullkomin.

Vonandi skilar sér öll færslan, Kv. A

ÉG

september 28, 2006

Halló, ég heiti Anna og ég er egóisti. Ég elska sjálfa mig og býst við því að lífið snúist í kringum rassinn á mér! Er það svo óraunhæf krafa? Hvers vegna ætti ég að vera að taka tillit til annarra, það hlýtur að vera í þeirra eigin verkahring að finna hamingjuna… Nei, ég get ekki blekkt mig lengur, ég er að reyna að vera egóisti – ég hef nefnilega þann leiðinlega eiginleika að láta aðra vaða yfir mig og taka súperdúber tillit til annarra. Dæmi, ég og Tóti förum út að labba með Lubba að kvöldi til. Við erum komin langt frá byggð þá hleypur Lubbi á eftir einhverjum fugli. Tóti fer að kalla á hundinn, nokkuð hátt en endar svo með því að öskra af öllum mætti því hundurinn er frekar óhlýðinn. Jæja, hvað fer í gegnum huga minn við slíkar aðstæður? ég fer að sjálfsögðu að skamma Tóta fyrir að vera með þennan hávaða, það gætu verið hús í nágrenninu og inni í þessum hugsanlegu húsum gætu verið börn – sem gætu verið farin að sofa – o.s.frv. Það fylgdi sögunni hér áðan að við vorum komin langt frá byggð – en ég ræð ekki við þetta, ég fer alltaf að búa til aðstæður í huganum þar sem ég ímynda mér að allt sem ég geri hafi einhvers konar truflandi áhrif á aðra.

sannleikann eða kontor

september 27, 2006

sannleikann? nú ok, skráðir þú þig í STOPP.is og skrifaðir undir eftirfarandi:

Ég hyggst fara að lögum í umferðinni.

Ég ætla að gera allt sem ég get til að skaða hvorki mig né aðra í umferðinni.

Ég ætla að auðvelda öðrum vegfarendum að komast leiðar sinnar á sem öruggastan hátt.

Ég ætla að hvetja þá sem mér þykir vænt um til að gera slíkt hið sama.

Ef þú skráðir þig/skrifaðir undir, ferðu þá eftir því ???

Bloggpressa

september 20, 2006

púff, mér finnst eins og ég sé undir smá þrýstingi hérna um að blogga eitthvað skemmtilegt og sniðugt fyrst ég var nú að búa mér til nýtt blogg. Hef ekki tíma alveg núna sökum bodypump æðisins míns – Vill vekja athygli ykkar á katagóríunum mínum (man ekki íslenska orðið í augnablikinu – Halla getur kannski hjálpað til við það). Kóma-katagórían:segir sig sjálft, þangað fara leiðinleg blogg sem enginn nennir að lesa nema þeir sem eru í kóma! Kynni fleiri katagóríur síðar, er að verða of sein – gangið á drottins vegum

kv. Anna