Játningar

febrúar 28, 2007

nú, eftir margra mínútna innhverfa íhugun, hef ég komist að niðurstöðu. Hún er sú að ég nenni alls ekki að kommenta á öll blogg – sjokkerandi, ég veit. Þau blogg sem ég nenni hvað síst að kommenta á eru færslur sem snúast um daglegt líf, og þá á ég við daglegt líf eins og: ég fór í búðina í dag og keypti í matinn, fannst allt vera hræðilega dýrt, fór svo heim og eldaði, horfði á tvo þætti í imbanum og fór svo að sofa = BORING Ég meina, hvað er hægt að kommenta á svona færslur? Síðan koma færslunar um fátæku börnin í útlöndum og alls konar svona góðgerðarblogg, ég er engin Angelina Jolie og hef afar litlar skoðanir á þessum málum og nenni ekki að mynda mér skoðun til þess eins að kommenta. Síðan koma blogg um bókagagnrýni og veitingastaðagagnrýni, ég hef ekki tíma fyrir annað en skólabækur og er svo heimakær að veitingastaðir eru mjög sjaldgæfir viðkomustaðir í mínu lífi, þannig að nenni ekki að kommenta svoleiðis færslur (nenni ekki einu sinni að lesa þær).

Ok, nú eru komin nokkur dæmi um bloggfærslur sem henta mér ekki og ég nenni hreinlega ekki að kommenta á þær. Svo fór ég að hugsa um kommentin mín. Þið, bloggvinir mínir, hafið kannski tekið eftir að ég er yfirleitt ekki með einhver mússí mússí komment (ef þið haldið það þá hefur kaldhæðnin farið eitthvað framhjá ykkur). Ég tók nefnilega þessa ákvörðun fyrir margt svo löngu síðan að vera leiðinleg í kommentunum mínum. Ók, kannski ekki leiðinleg en heldur ekki skemmtileg, ekki uppörvandi, ekki styðjandi, ekki þessi venjulega rassakyssandi vinkona sem segir að allt sé flott og æðislegt. Ég vil frekar rífast svolítið (þeir sem eru dannaðaðri kalla þetta rökræður) án þess þó að mógða – það er alls ekki mín ætlun enda er það nú bara dónaskapur – já og af gefnu tilefni: án þess að vera köllur framsóknarmanneskja (held ég hafi verið sú eina í ML-aðlinum sem ekki skráði sig í framsókn fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar)

Ok, hef sem sagt játað fyrir ykkur að nenna ekki að kommenta á allar bloggfærslur og að vera leiðinlegur kommentari af yfirlögðu ráði. Þá er bara ein játning eftir, hún er sú að ég kommenta yfirleitt ekki hjá Jónínu Ingibjörgu því kommentakerfið er svo lengi að opnast hjá henni – annars myndi ég kommenta leiðinlega þar líka.

Yfir og út frá dal hinna dauðu!!!

Vaskur af málsvarnarlaunum

febrúar 27, 2007

Munið þið hvernig það átti að tækla þetta aftur? Alla vega, ein ég sit og stefni íslenska ríkinu – það er ekki hægt að toppa það. Vona bara að Einsi kaldi verði jafn kærulaus í yfirferð þessa verkefnis og hann var þann dag sem hann fjárfesti í grænu úlpunni!

Kristniboð

febrúar 26, 2007

vá, hvað opinbera réttarfarið kúventist í dag, við erum búin að hlusta á saksóknara og starfsmenn ríkisssaksóknara fjalla um opinbert réttarfar – síðan kom í dag einn sem starfar hinum megin við borðið, þ.e. er verjandi ribbaldalýðisins, og þá fékk maður beint í æð þessa mismunandi hagsmuni – annars vegar rannsóknarhagsmunir lögreglu og hins vegar hagsmunir sakbornings. Kennarinn boðaði hinn heilaga sannleika en ég hef ekki náð að frelsast – er alls ekki sammála honum um öll atriði þrátt fyrir að vera einn aðalmeðlimur leynifélagsins Óþokka og bófa. Halelúja!

Jább, afmælisdagurinn var góður, eftir Hæstarétt var brunað á einhvern veitingastað sem ég man ekki hvað heitir og við vinkonurnar fengum okkur vel útilátinn hádegisverð. Eftir það tók Kringlan við þar sem Mammon tók vel á móti okkur og okkar pening. Eftir það fór ég í hinn vel gróna bæ Kópavog (sem státar bráðlega af enn fallegri trjám en ella) þar sem Gunnar Birgisson tók vel á móti mér – nei reyndar var það tengdó en ekki Gunnar – og þar beið mín önnur afmælisveisla, heldur óhefðbundin þó fyrir svona gamla kjellingu eins og mig, þ.e. pizzupartý!!! Tengdó tjáði mér að ég væri svo ung að hún hafi ákveðið að hafa barnaafmæli. Jahá, ekki slæmt það. Það státa sko ekki allir af því að fá barnaafmæli þegar þeir verða 28 ára 🙂 🙂 🙂

***

Ég var í sakleysi mínu að horfa á Jón nokkurn Ólafsson í sjónvarpinu á laugardagskveldinu. Þar sá ég hljómsveitina Helga og hljóðfæraleikarana flytja lagið Janúarmyrkur og snjór og leist nokkuð vel á, ótrúlega góður texti alla vega! Síðan sýndi Jón svona syrpu af hljómsveitum frá Norðurlandi, þar byrjaði Baraflokkurinn, síðan 200.000 naglbítar, þá Skriðjöklar með aukakílóin út um allt á mér, síðan Karl Örvars frekar halló, svo Hvannadalsbræður allir í eins lopapeysu og síðast en ekki síst kom hljómsveit sem heitir Hver. Ég get svo svarið fyrir það að aðalsöngkonan í þessari grúppu var engin önnur en okkar eina og sanna Guðný Ösp Ragnarsdóttir og söng hún meðal annars um að þeir sem verða blankir hringi í 12 6 12. Ég hvet alla til að kíkja á vefupptöku af þættinum og sjá Guðnýju enda ekki á hverjum degi sem Bifrestingar koma í imbakassann. Ef þið nennið ekki að horfa á allan þáttinn þá er þetta þegar ca. 3/4 hlutar eru búnir, eftir Helga og hlf. en undan Skriðjöklum (menn í náttfötum).

Til hamingju Ísland

febrúar 22, 2007

Já, þetta er sannkallaður hamingjudagur, enda einum Strandamanninum fleiri í dag heldur en í gær – gæti ekki verið betra. Til hamingju með drenginn Igga og Sverrir, það er vonandi að hann dafni vel og verði stór og sterkur eins og mamma sín 🙂

Sit annars hér og velti því fyrir mér hvort ég eigi að stefna Árna M. Mathiesen eða ekki vegna ólögmætrar handtöku m.a. – og hvort ég eigi að skreppa í Hæstarétt í fyrramálið og sjá vin hans Bigga skjálfa á beinunum, ég er nefnilega ekki alveg sú morgunhressasta þessa dagana og var að spá hvort ég ætti frekar að sofa út á morgun – svona í tilefni dagsins?