já, það mætti halda að mig hafi gripið eitthvað bloggæði – en það er nú oft svona þegar maður Á AÐ VERA AÐ LÆRA…

Alla vega, skordýr er eitthvað sem ég er ekki hrifin af. Þegar ég var lítil stóð ég oft í glugganum heima hjá ömmu Nönnu og veiddi fiskiflugur og át þær – jummí. Núna eru þessar elskur, hlussufiskiflugur, að vakna til lífsins og eru c.a. ein í hverju herbergi (á varmalandsmælikvarða – ekki bifrastarmælikvarða). Þetta er alveg ótrúlegt því þegar þær „drepast“ á haustin legg ég mig fram við að finna þær allar sem eru hér innandyra og henda þeim í ruslið. Hvaðan koma þær?? og svo er ég ein heima og veit ekki hvort ég komi til með að geta sofið með allar þessar hlussur sveimandi í kringum mig (en þá gef ég mér að þær sameinist allar í einu herbergi) ábyggilega í hefndarhug vegna þeirra sem ég át á sínum tíma…

En gleðifréttir: Þorgrímur Þráinsson ætlar að skrifa sjálfshjálparbók handa íslenskum karlmönnum – íslenska þjóðin er hólpin!

gleymda færslan

apríl 20, 2007

já, ég skil nú bara ekkert í mér. Þegar ég hlammaði mér í sófann nú fyrr í kvöld til að horfa á Inför ESC 2007, með Big Red í broddi fylkingar, áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt að blogga um júróvísjón lögin, eins og ég ætlaði. Jæja, þið fáið þá bara tvöfaldan skammt næst – eitt laganna úr síðustu færslu kom núna, Albanía (hárkollan og yfirvaraskeggið) og voru norðurlandaspekingar á sama máli og ég: Terrible. Og ég verð að segja að danska lagið var hörmung og norska lagið var alls ekkert gott heldur en ekki jafn mikil hörmung og það danska (sorrý Mette).

Ekki meira um það, aðeins um pólitík en það virðist vera í tísku þessa dagana að blogga um pólitík. Mikið vildi ég að ég hefði einhvern áhuga á þeirri tík og ÉG Á AÐ HAFA ÁHUGA – öðruvísi virkar ekki lýðræðið og bleble… En, það er sama hvað ég reyni, pólitíkin er meira svæfandi en rauða serían hans Þorgeirs Örlygssonar. Ég vil bara að einhver segi mér hvað ég eigi að kjósa og hana nú! (kannski ég kjósi sjallana og fái +1 hjá Brynjari eða VG og fái +1 hjá Stráða eða framsókn og fá +101 hjá afa).

Og að lokum, til hamingju Strandamenn og aðrir vestfirðingar (já, Strandir eru á Vestfjörðum) með veginn um Arnkötludal sem virðist ætla að verða að veruleika. Vonandi kemur hann ekki til með að heita Tröllatunguvegur (eða Drullutungu eins og sumir segja) því hitt er svo miklu fallegra og byrjar á svo rosalega flottum staf.

húsmóðir

apríl 18, 2007

já, Hrafnhildur var eitthvað að gera gys að áhuga mínum á leiðó og júró í commó á síðustu færsló – heyó, þetta er gammó, veió! Allt í lagi, hætt – en já, mín kæra rauðka, hvenær ætlarðu loksins að átta þig á því að ég er utan að landi? Þá er það komið á hreint og þá förum við yfir í alvöru málsins, færsla dagsins:

Ég held að ég verði aldrei fyrirmyndar húsmóðir. Ég tek svona tarnir og geri svo ekkert þess á milli en þá hleðst upp skíturinn og drullan og það endar með því að það verður að taka allsherjarhreingerningu og það + fresturnarárátta = ekki gott. Alla vega þá er ég komin á þá skoðun að ég verði ekki sönn húsmóðir fyrr en þann dag sem ég hætti að gráta af gleði þegar ég klára upp úr óhreinatauskörfunni. En ég bara get ekki hugsað mér að missa þennan stóra en fátíða gleðigjafa úr lífi mínu þannig að: B-manneskja í húsmóðursstörfum eins og öllu öðru.

Crocs eru dásamleg og forljót uppfinning, ég var nú ekkert að drífa mig að fjárfesta í pari en fer varla úr þeim núna (þori reyndar ekki í þeim í skólann, þeir eru svo ljótir og passa svo rosalega illa við „hátískufötin“ mín). Mæli með þeim, þeir fá *** af 5, dregið niður fyrir ljótleika.

Ekki meira í bili,

kv. Anna

júróvisjón

apríl 12, 2007

Ákvað að deila skoðunum mínum á júróvisjón-lögunum með ykkur, endilega kíkið á lögin hér. Byrja á fyrstu sex lögunum. Og munið svo eftir fyrsta þættinum með Eika á morgun, föstudag kl. 20.10!

1. Albanía – ágætis lag en mikið var söngvarinn skrítinn, var þetta ekta hár? og hverjum dettur í hug að vera sjálfviljugur með svona yfirvaraskegg?

2. Andorra – Green day bara, á samt eftir að sjá hvernig þetta gerir sig á sviði, þ.e. verður söngvarinn jafn kraftimikill þar og í þessari upptöku?? Þetta er eiginlega of Green day legt fyrir minn smekk, ekkert spennandi…

3. Armenía – HVÍTAR GALLABUXUR er það sem stendur upp úr í þessu lagi, og svo auðvitað sú staðreynd að söngvarinn virðist vera að synja eitthvað allt annað lag en það sem heyrist, líklega hefur myndbandið verið tekið upp með upphaflega textanum (á armenísku eða hvað sem þetta heitir) en ensku útgáfunni svo bara skellt með – sæmilegt lag svo sem en þessi nakta kona er ekki alveg að gera sig heldur…

4. Austurríki – já þú segir það Get alive og er þetta ekki eyðniborðinn þarna bakvið? Þetta er einhvers konar áróðurslag fyrir eyðninni held ég sem er algjörlega þarft og allt það. Mér finnst lagið ók, ekkert spes en mikið er ég ákveðin í að ná dansinum hjá honum Eric, bara flottur…

5. Hvíta Rússland – hvílíkur drami, greinilega mikið lagt í þetta myndband. Hljómsveitin svona semi-þungarokkband sem tónar nokkuð vel við lordarana síðan í fyrra en síðan er lagið ekki alveg jafn rokkað og bandið er – eða eitthvað….

og síðasta lagið í þessari færslu

6. Bosnía&Hersegóvína (eða hvernig sem það er skrifað) – bara flott, ég er alltaf algjör sökker fyrir dimmrödduðum söngkonum sem syngja svona austantjalds þjóðlagatónlist – vona bara að hún verði ekki með þennan hekludúk á höfðinu í Helsinki.

NEI, ég ætla ekkert að fara að blogga!