Núna erum við ML-ingar í kúrsi sem heitir samningaréttur 2 eða hagnýtur samningaréttur. Ég get ekki sagt að ég sé að læra neitt nýtt þannig séð þar sem ég er nú þegar búin með samningarétt 1, kröfurétt 1 og 2, international commercial law og samningatækni en þessi kúrs virðist vera svona samblanda af þeim öllum. Allt í læ, ég hlýt nú að vera að læra eitthvað, en mikið er erfitt að fylgjast með þegar manni finnst eins og það sé nú þegar búið að margtyggja þetta ofan í mann.

En svo ég snúi mér nú að aðalefninu en það varðar kennarann í þessum ágæta kúrs. Hann hefur kennt okkur áður, bæði hugverka- og auðkennarétt og samkeppnisrétt. Þá var karlinn alltaf hress og kátur, hann átti það til dæmis til að stoppa í miðri kraftbendilssýningu og spila fyrir okkur myndbönd með ædolinu sínu honum Vanilla Ice og fleiri góðum gellum og gæjum. Sem sagt bara sáttur við lífið og tilveruna. Núna hins vegar, tæpum tveimur árum síðar, er varla sjón að sjá manninn; Augun, sem eitt sinn tindruðu af hamingju, eru tóm. Brosið, sem eitt sinn náði til eyrnanna nær ekki þangað lengur. Maðurinn, sem eitt sinn mætti bísperrtur og til í allt 10 mínútum fyrr en tíminn átti að byrja, læðist nú hokinn með veggjum og mætir síðastur af öllum. Kennarinn, sem skreytti kraftbendilssýninguna með hljóðdæmum, hefur nú ekki lengur tíma til slíks sökum þess að hann er að skanna inn allt lesefnið, sem þó er aðgengilegt á bókasafninu. Ég segi nú bara eins og einn góður maður sagði, hvað skeðist eiginlega???

bjakk

ágúst 14, 2007

Víti til varnaðar: ég sit hér uppi í rúmi í Ásgarði 1 og er að læra (að sjálfsögðu). Ég er alveg niðursokkin í dóm Hæstaréttar í máli nr. 353/2001 þegar ég finn allt í einu að hið frábæra lasanja ala knorr sem ég borðaði í kvöldmatinn er að læða sér öfuga leið út úr mér aftur og ég er að því komin að æla á tölvuna mína sem ég hef í kjöltu mér. En ég finn fljótt orsök vandans og get því komið í veg fyrir stórtjón á síðustu stundu. En hvað orsakaði þessar skyndilegu meltingarófarir? jú, eins og ég sagði er ég með tölvuna í kjöltunni og er að hlusta á tónlist í gegnum radio.blog.club. Til að gera langa sögu stutta þá lenti ég á lagalista með hinu frábæra lagi Fantasy með Maríu nokkurri Carey og það fékk að hljóma óáreitt í eyru mín í nokkra stund, en slíkt getur verið stórhættulegt eins og reynsla mín sannar!

Komið hafa fram nokkrar tillögur um nafn á VSL sem ég ætla að deila með ykkur hér:

Nr. 1 Jóhanna Þorvaldsdóttir (alnafna ömmu sinnar)

Nr. 2 Jónína Ingibjörg Þorvaldsdóttir (óþarfi að útskýra)

Nr. 3 Ástríður Theresa Þorvaldsdóttir (ef hún fæðist þann 27. ágúst og yrði hún þá skýrð eftir Ástráði og hans evil twin móður Theresu sem eru sem sagt fædd þennan dag)

Nr. 4 Ásgerður Ædol Þorvaldsdóttir (ef hún fæðist í Ásgarði 1 en Ædol nafnið er stolið frá einhverri ammerískri sem skýrði barnið sitt Idol því hún fékk hríðir í áheyrnaprófi í þeim merka þætti og mér þótti það svo flott og viðeigandi)

Og hvernig lýst ykkur svo á, eruð þið kannski með betri tillögu?? Mikið vildi ég að ég hefði verið uppi fyrir nokkrum öldum, þá hefði verið svo einfalt að ákveða nafn á börnin sín, ef nafnsins var ekki vitjað í draumi þá var það bara skýrt Jón eða Guðrún. Nei nei, nú er ekki einu sinni lengur inn að skýra barnið eftir ömmum þess eða öfum (sorrý Hemmi) (sem strokar út Jóhönnunafnið) heldur verður maður að vera alveg sérstaklega frumlegur og hipp og kúl (sem strokar út hin nöfnin, að Ædol undanteknu). Ég verð að finna eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem minnir mig á þessa dásamlegu að verða 9 mánuði lífs míns sem farið hafa í að hýsa VSL. Það er bara eitt sem kemur upp í hugann og já, það eitt er þess vert að nefna í höfuðið á: Crocksararnir mínir!

Crocksína Ædol Þorvaldsdóttir, geri aðrir betur!!!

 

Kaupa eða ekki kaupa

ágúst 2, 2007

Við hjónin erum í miklum hugleiðingum þessa dagana, eigum við að kaupa íbúð núna eða eigum við að doka í nokkra mánuði og trúið mér, það er margt sem mælir með hvoru tveggja. En ef ég tæki 100% mark á stjörnuspánni í Mogganum þá væri svarið augljóst:

Fiskar: Augu þín eru stærri en þarfir þínar. Að eiga of mikið er bara fúlt – drasl að bera, koma fyrir og viðhalda. Bíddu áður en þú kaupir eitthvað nýtt.