skírn?!?

október 31, 2007

já, það eru nú bara allir búnir að láta skíra nema ég – Fanneyjar prinsessa heitir Tinna og baunin hennar Maj-Brit(ar) heitir Herdís María. Óli frændi er svo að fara að skíra á morgun, ég held að nafnið sé ekkert leyndarmál en sonur hans á að heita Jakob Már.

Við erum búin að ákveða nafn á litlu rófuna okkar, en ÞAРer hins vegar LEYNDARMÁL – nanananabúbú nanananabúbú…

óvæntur endir, eða hvað?

október 24, 2007

ég er voðalega á móti því þegar einhverjum dettur í hug að kjafta frá söguþræðinum í bókum, myndum eða þáttum, sérstaklega þegar litlar líkur eru á því að nokkur annar sé búinn að sjá viðkomandi bók, mynd eða þátt. Þetta gerðist t.d. í sumar með Harry Potter, einhver snillingur á Fréttablaðinu skrifaði grein um nýju bókina og sagði um leið frá einhverju svakalegu plotti.  Næsta dag skrifaði brjálaður Harry Potter aðdáandi í Fréttablaðið og gersamlega missti sig yfir þessum skrifum snillingsins daginn áður. Það tókst þó ekki betur til en svo að þeir sem misstu af plottinu daginn áður gátu lesið um það hjá þessum sem endurtók það sem snillingurinn hafði skrifað, hversu kaldhæðnislegt er það??

Jæja, ástæðan fyrir því að ég er að bulla um þetta er frétt á mbl.is um Ísland í Greys Anatomy. Linkur á fréttina er hér fyrir neðan en NOTA BENE ef þú vilt ekki vita hvernig þessi umræddi þáttur í Greys Anatomy endaði slepptu því þá að lesa seinni hluta fréttarinnar… hér er fréttin

og að lokum þá mæli ég með því að allir þeir sem ekki hafa lesið Bettý eftir Arnald Indriða geri það sem fyrst svo einhver fæðingarhálfviti á Fréttablaðinu eða mbl.is skrifi ekki bókagagnrýni um hana og upplýsi þar með um svakalegasta plott í íslenskum bókmenntum fyrr og síðar!

ég er kolfallin fyrir Næturvaktinni, þetta eru snilldarþættir SNILLDAR! Tóti getur varla horft á þá því hann vorkennir svo svakalega Ólafi (starfsmanni á plani) en ég læt ekki svona væl hafa áhrif á mig. Ég er reyndar virkilega farin að spá í hvað sé eiginlega að mér, hef ég enga samúð með minni máttar? Fór t.d. að horfa á málflutning um daginn þar sem ég var sú eina af hópnum sem hélt með auðvaldinu, ekki greyið gamla manninum sem seldi óvart fasteignina sína á Hverfisgötu… Ég er vond vond vond og mér skilst meira að segja að mér sé ekki við bjargandi. Jæja þá er bara að lifa með því.

blóðið og líkamann

október 10, 2007

Á síðasta sunnudag byrjaði sunnudagaskólinn hér á Hólmavík. Eins og guðhræddum foreldrum sæmir ákváðum við Þorvaldur að okkar barn skyldi fara í skólann og var síðar ákveðið að móðirin yrði fylgimey drengsins í ferðum þessum ( sérstaklega í ljósi þess að mikið er um söngva og hinn helmingur foreldrateymisins er vita laglaus). Ég fékk að sjálfsögðu hálfgert nostalgíukast þegar farið var að syngja Djúp & breið, Ó Jesús bróðir besti, Daníel og Rut og svo framvegis, og minntist þess þegar ég mætti prúðbúin í sömu kirkju á sunnudagsmorgnum fyrir „nokkrum“ árum síðan. Þá sungum við að mestu leyti sömu lögin og með sömu hreyfingar og allt það. Núna á sunnudaginn komst ég hins vegar að því að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, það var nefnilega strákur í sunnudagaskóla með mér sem var kallaður Rikki og að því tilefni sungum við alltaf

Rikki tikki ta,

Rikki tikki ta,

Rikki tikki rikki tikki ta…

og það var einmitt það sem ég syng enn þann dag í dag og á mjög erfitt með að venja mig af…

Spurningin er svo hvaða áhrif vikulegar heimsóknir í sunnudagaskólann hafi á minn unga mann. Alla vega kom hann heim úr leikskólanum í dag og aðspurður um hvað hafi verið í matinn svaraði hann að það hefði verið slátur og hann hefði bæði borðað blóðið og líkamann. Ég geri ráð fyrir að það síðarnefnda sé lifrapylsan en þetta var bara svo kristilegt svar að ég ákvað að vera ekkert að leiðrétta hann…

já, þá er hefur VSL glatað V-inu og er nú bara SL (skyldubundinn lögerfingi) og nú telur fjölskyldan fjóra + hund > hin sannkallaða kjarnafjölskylda. Ég er yfirmáta löt að blogga en er þó búin að henda inn einhverjum myndum á barnaland, sjá bloggrolluna neðst á síðunni, og leyniorðið er nafnið á þessu stóra svarta kvikindi sem prýðir síðuhausinn. En barnaland er reyndar búið að vera dulítið erfitt við mig varðandi að hlaða inn myndum EN ÞAÐ ER KOMIÐ Í LAG NÚNA þannig að ég bendi líka á myndasíðuna mína sem er líka í rollunni (sjáum svo til hvort mér tekst að hlaða inn á hana).

Fyrir þá sem ekki vita var SL stúlka. Hún hefur enn ekki hlotið nafn (þrátt fyrir margar og góðar tillögur) og gengur þess vegna undir gælunafninu „lillaputt“ eða bara „litla“. Hún fæddist þann 6. september og er þriggja vikna og fimm daga gömul. Hún er við hestaheilsu (7-9-13) og er algjör draumabarn þegar hún sefur – vakandi er hún hins vegar martröð – nei, það má víst ekki segja svona – hún er algjör englabossi jafnt í svefni sem vöku mússí mússí mússí mússí.

Hemmi stóri bróðir er mjög stoltur og ánægður og hefur bara einu sinni spurt hvort við gætum ekki sett hana í svona barnaumslag og sent hana í pósti til ömmu Hönnu! Annars er það eintóm þolinmæði sem þessi stóri strákur hefur sýnt nýjasta fjölskyldumeðlimnum.

Meira síðar, mjaltavélin kallar.

Ta ta