ó já

janúar 30, 2008

það er ekkert að frétta af Ópínu, hef ekki heyrt í henni síðan ég bloggaði um hana – er farin að gruna ýmislegt, t.d. að Sóley hafi verið að passa íbúð vinkonu sinnar sem býr hér í blokkinni og beri ábyrgð á þessum óhljóðum (hún og ástþór 2000 kall altso) og ekki þorað öðru en að hætta þegar hún las síðasta blogg. Eða að við Tóti höfum bara rústað keppninni, það gæti líka verið. Ætla að setja málið í frekari rannsókn – spurning um að fá styrk úr forsetaframboðssjóðnum til rannsóknarinnar !?!
Var að hugsa, fyrir ári síðan sat ég á Varmalandi, við þessa sömu tölvu og var nýbyrjuð á vorönninni í meistaranáminu – með ógleði aldarinnar út af lillunni í mallanum og leist nú ekkert á blikuna með samspil óléttunnar og námsins. En þetta hafðist allt saman, útskrift núna 9. febrúar og lífið er svona að taka á sig þessa venjulegu mynd, vinna+elda+þrífa+gefa+svæfa+horfa á forbrydelsen+þvo þvottinn og svo videre… já, maður er að verða venjulegur, bara örlítill hluti af öllu þessu bákni sem höfuðborgarsvæðið er – fellur inn í fjöldann – ósýnilegur – mmmmmm
Nú er svo komið með mig að ég er byrjuð í body pump í baðhúsinu, með tvíbbanum mínum sem er reyndar í hörku góðu formi eftir bútsaumabúðirnar og allar tröppurnar í kópavoginum, þannig að ég verð heldur betur að herða mig (fer í aukatíma í laumi án þess að hún viti). Hver ætli sé besta þýðingin á body pump? Líkamsdæling? einhver með betri tillögur???
hef svo sem ekkert að segja, var bara búin að tilkynna höllu að ég myndi blogga færu kommentin yfir tuttugu þannig að …
bestu kveðjur kæru vinir nær og fjær

Ópavogur

janúar 14, 2008

já, ég bý í fjölbýlishúsi, þ.e. ég bý í sama húsi og fjöldinn allur af fólki, það hefur ýmislegt í för með sér! Þrátt fyrir að heyra nánast aldrei í nokkrum einasta manni í næstu íbúðum þá vill það brenna við að seint á kvöldin, þegar búið er að slökkva á öllum viðtækjum og allir eru komnir í ró, að óhljóðin fara að heyrast. Þá á ég ekki bara við taktföst og hávær högg heldur líka ópin ógurlegu. Við sem hér búum vitum nákvæmlega hvenær Ópína nær tindinum, við höfum hins vegar ekki hugmynd um hvar hún býr – uppi, niðri, hægra megin, vinstra megin??? ég er reyndar ekki viss um að ég myndi þora að kvarta í henni ef ég vissi hver þetta væri enda er ég yfirlýst tepra eins og þið vitið!
🙂 😉 🙂

ahhh

janúar 8, 2008

loksins komin með netið,
ýmislegt hefur gengið á hjá litlu fjölskyldunni, erum flutt í til Gunnars og trjánna í Kaupavog, ég er búin að skila ritgerðinni, byrjuð í nýrri vinnu og Hermann búinn að fara á fyrstu æfinguna með Breiðabliki, Tóti dundar með börnin heima og Elma stækkar og stækkar og er brosmildasta barn sem ég hef séð – já, allt er dásamlegt og allir molarnir eru góðir: takk pabbi fyrir konfektkassann, ég át hann ALLAN!