Barnaafmæli og Guðný Ösp í imbanum
febrúar 25, 2007
Jább, afmælisdagurinn var góður, eftir Hæstarétt var brunað á einhvern veitingastað sem ég man ekki hvað heitir og við vinkonurnar fengum okkur vel útilátinn hádegisverð. Eftir það tók Kringlan við þar sem Mammon tók vel á móti okkur og okkar pening. Eftir það fór ég í hinn vel gróna bæ Kópavog (sem státar bráðlega af enn fallegri trjám en ella) þar sem Gunnar Birgisson tók vel á móti mér – nei reyndar var það tengdó en ekki Gunnar – og þar beið mín önnur afmælisveisla, heldur óhefðbundin þó fyrir svona gamla kjellingu eins og mig, þ.e. pizzupartý!!! Tengdó tjáði mér að ég væri svo ung að hún hafi ákveðið að hafa barnaafmæli. Jahá, ekki slæmt það. Það státa sko ekki allir af því að fá barnaafmæli þegar þeir verða 28 ára 🙂 🙂 🙂
***
Ég var í sakleysi mínu að horfa á Jón nokkurn Ólafsson í sjónvarpinu á laugardagskveldinu. Þar sá ég hljómsveitina Helga og hljóðfæraleikarana flytja lagið Janúarmyrkur og snjór og leist nokkuð vel á, ótrúlega góður texti alla vega! Síðan sýndi Jón svona syrpu af hljómsveitum frá Norðurlandi, þar byrjaði Baraflokkurinn, síðan 200.000 naglbítar, þá Skriðjöklar með aukakílóin út um allt á mér, síðan Karl Örvars frekar halló, svo Hvannadalsbræður allir í eins lopapeysu og síðast en ekki síst kom hljómsveit sem heitir Hver. Ég get svo svarið fyrir það að aðalsöngkonan í þessari grúppu var engin önnur en okkar eina og sanna Guðný Ösp Ragnarsdóttir og söng hún meðal annars um að þeir sem verða blankir hringi í 12 6 12. Ég hvet alla til að kíkja á vefupptöku af þættinum og sjá Guðnýju enda ekki á hverjum degi sem Bifrestingar koma í imbakassann. Ef þið nennið ekki að horfa á allan þáttinn þá er þetta þegar ca. 3/4 hlutar eru búnir, eftir Helga og hlf. en undan Skriðjöklum (menn í náttfötum).
fjársjóður
desember 18, 2006
jamm, ég var sko að fá fjársjóð í dag, eða það finnst mér alla vega þótt svo að Feng Shui aðdáendur séu kannski ekki alveg sammála mér. Tóti var að koma að norðan með smekkfullan bíl af kössum sem eru búnir að vera í geymslu hjá mútter í fjegur ár. Gat ekki staðist freistinguna og kíkti ofan í nokkra, úff hvað það verður gaman hjá mér á morgun eftir prófið – trallallallallallaaaa
Síðasta prófið er sem sagt á morgun í grillveislu Einars Karls og Benna Boga. Verst er að ég er svo stressuð og tygg svo mikið tyggjó að kjálkarnir á mér verða ábyggilega svo stífir að ég get ekki talað á morgun – tja, þetta verður nú varla verra en þegar ég missti röddina daginn áður en ég gifti mig!
Á sirkabát 2ja ára fresti verð ég kjaftstopp
desember 10, 2006
það er þegar Elías bróðir minn finnur hjá sér þörf til að hringja í mig 😉 ekki leiðinlegt það, skil bara ekki hvers vegna hann hringir ekki oftar miðað við hvað við getum hlegið í símann!?!
Evrópudómstóllinn í Lúxemborg – ECJ
september 29, 2006
Eins og GLÖGGIR lesendur bloggsins hafa tekið eftir þá er myndin hérna fyrir ofan tekin þegar við fórum og heimsóttum Evrópudómstólinn í Lúxemborg í maí 2005. Þetta eru sem sagt finnsku túlkarnir sem sjást þarna inni í glerbúrinu. Einnig má sjá stólana sem við sátum í meðan við hlýddum á flutning máls fyrir dómnum. Þetta var hálf skondið því þegar við komum vorum við tekin í smá fyrirlestur og var þá lögð gríðarleg áhersla á að við sofnuðum ekki á meðan málflutningi stæði. Var okkur einnig bent á að það væri mjög auðvelt að sofna því stólarnir væru svo þægilegir!! Jæja, hvað um það, ég minnist þess nú ekki að stólarnir hafi verið eitthvað súper dúber þægilegir en málflutningurinn var hins vegar í besta falli mjög svæfandi. Það gerði það að verkum að undirrituð sat og flakkaði á milli túlka í heyrnatólinu og beindi ég um leið sjónum mínum að túlkunum sjálfum þar sem þeir sátu í básunum. Þessar finnsku, sem prýða bloggið mitt, voru ekkert minna svæfandi en flutningurinn sjálfur þannig að ég var fljót að skipta yfir á næsta túlk. Af öllum túlkunum bar sá franski höfuð og herðar yfir hina. Hann talaði held ég meira með höndunum en hann gerði með munninum – svo skemmdi útlitið nú ekki fyrir, bara alveg eins og sjarmörinn hann Gerard Depardieu!!!
Nóg í bili, njótið helgarinnar og í guðs bænum farið varlega í umferðinni,
A
ÉG
september 28, 2006
Halló, ég heiti Anna og ég er egóisti. Ég elska sjálfa mig og býst við því að lífið snúist í kringum rassinn á mér! Er það svo óraunhæf krafa? Hvers vegna ætti ég að vera að taka tillit til annarra, það hlýtur að vera í þeirra eigin verkahring að finna hamingjuna… Nei, ég get ekki blekkt mig lengur, ég er að reyna að vera egóisti – ég hef nefnilega þann leiðinlega eiginleika að láta aðra vaða yfir mig og taka súperdúber tillit til annarra. Dæmi, ég og Tóti förum út að labba með Lubba að kvöldi til. Við erum komin langt frá byggð þá hleypur Lubbi á eftir einhverjum fugli. Tóti fer að kalla á hundinn, nokkuð hátt en endar svo með því að öskra af öllum mætti því hundurinn er frekar óhlýðinn. Jæja, hvað fer í gegnum huga minn við slíkar aðstæður? ég fer að sjálfsögðu að skamma Tóta fyrir að vera með þennan hávaða, það gætu verið hús í nágrenninu og inni í þessum hugsanlegu húsum gætu verið börn – sem gætu verið farin að sofa – o.s.frv. Það fylgdi sögunni hér áðan að við vorum komin langt frá byggð – en ég ræð ekki við þetta, ég fer alltaf að búa til aðstæður í huganum þar sem ég ímynda mér að allt sem ég geri hafi einhvers konar truflandi áhrif á aðra.