WALL-E
september 20, 2008
Við Hemmi skelltum okkur í bíó í dag, fórum að sjá hina Wall-E en litli herramaðurinn á heimilinu hefur vart talað um annað undanfarna daga – sem er kærkomin hvíld frá Köngulóarmanninum – og því ekkert annað að gera en kíla á þetta. Myndin var það góð að ég þurfti að draga Hermann út úr bíósalnum því hann ætlaði að vera áfram og sjá myndina aftur!!! Þessi mynd er góð áminning fyrir okkur mennina bæði hvað varðar umhyggju fyrir umhverfinu sem og því að við megum ekki gleyma að horfa á stóru myndina því ekki er alltaf allt sem sýnist. Ég mæli hiklaust með Wall-e, hvort sem þú ert 5 ára, 25 ára eða 55 ára.
Sonur minn fer alveg á kostum þessa dagana. Hann er nýbyrjaður í 1. bekk í Salaskóla og er sko heldur betur að fíla það (fyrir utan eilítið tuð þegar hann á að fara sofa og þegar hann á að vakna, gelgjan byrjar snemma!!!). Síðan er hann byrjaður að æfa sund hjá Breiðablik. Hann hefur aldrei lært sund áður fyrir utan það sem pabbi hans hefur verið að kenna honum – en hann er ótrúlega duglegur. Á fyrstu æfingunni þurfti hann að byrja á því að synda fjórar ferðir skriðsund bara með fótum (og kork). Hann lét sig hafa þetta þótt hann hafi stoppað svona 200 sinnum á leiðinni en í hvert skipti sem hann stoppaði leit hann skælbrosandi til pabba síns sem stóð á bakkanum og fylgdist með. Meira að segja í baksundi, sem var fremur kafsund hjá mínum manni, hafði hann fyrir því að hughreysta föður sinn með því að stinga uppréttum þumli upp úr sundlauginni á hálfsmetra fresti – BARA duglegur. Hann veit líka alveg hvernig hann á að fara að því að bræða foreldra sína upp úr skónum. Hann kemur og faðmar mann og kyssir, tilkynnir manni að maður sé nú rosalega fínt klæddur í dag og toppar allt með eldheitum ástarjátningum. Hann skaut þó illilega yfir markið um daginn. Þannig var mál með vexti að Þorvaldur var á leið á fótboltaleik og ákvað nú að vera vel klæddur þar sem kallt væri úti. Þess vegna fór hann í svona göngunærföt, síðar buxur og síðermabol sem er renndur upp í háls. Þegar hann stóð í þessari múnderningu hér á stofugólfinu kemur Hermann askvaðandi og hrópar upp fyrir sgi: „vá, pabbi rosalega ertu flottur – þú ert alveg eins og Páll Óskar í rauða gallanum!!!“. Þið getið rétt ímyndað ykkur ánægjuna hjá Þorvaldi, sbr. þetta hér
Góðar stundir, AGI
Hermsnn er minn maður; kappsfullur, jákvæður, orðheppinn.
Gaman að sjá blogg frá þér aftur Anna mín.
Þessi orð eru rituð á gömlu tölvuna sem ég fékk mér þegar ég hóf skólagöngu á Bifröst haustið 2002. Nú er hún notuð sem skólagagn fyrir MHinginn á heimilinu.
Kær kveðja
Úa
Þú getur ekki ímyndað þér hvað það gleður mitt litla hjarta að þú skulir hafa látið svo lítið að blogga.
Áfram Anna!!!
Hermann er snillingur, það hef ég lengi vitað. Páll Óskar er myndarlegur og hæfileikaríkur maður, burtséð frá öðru og það sér Hermann. Bragð er að þá barnið finnur!
Bíddu nú við og halló hafnafjörður. Hvað er í gangi hérna. búið að raða inn bloggum og ég ekkert látin vita af þessu. Þetta er bara fínt hjá þér Anna GABC. Gaman að frétta eitthvað af ykkur. það er ein ung dama hérna sem bíður eftir því að komast í kópó, til að geta leikið við Hemma af því að hann er sko besti vinur hennar, og hún getur ekkert verið að leika við einhverja krakka hér.
Við sendum bestu kveðjur í Kópó, og vonum að þið farið ekki að segja mikið um hann Wally, svo að maður neiðist ekki til að skreppa í fjölskylduferð í Reykjavíkina til að sjá bíó.
kv. Hlíf
ég held það væri nú ráð að fara að skreppa og bara sem fyrst áður en hálkan kemur og áður en þeir hætt að sýna Wall-E